Um skólann

Stutt ágrip

Bæjarstjóri Seltjarnarness skrifaði skólanefnd bréf þann 28. júní 1974 þar sem hann bað nefndina að taka til athugunar stofnun tónlistarskóla vegna þess að tónmenntakennsla væri orðin óhóflega dýr fyrir sveitarfélagið. Fram að þeim tíma hafði tónmenntakennsla farið fram í Mýrarhúsaskóla og snúist fyrst og fremst um rekstur lúðrasveitar. Allur kostnaður við lúðrasveitina var greiddur af sveitarfélaginu en við stofnun tónlistarskóla fengist hluti kostnaðar greiddur úr ríkissjóði.

Skólanefnd tók erindi bæjarstjóra mjög vel. Skólinn var stofnaður síðar á árinu og fyrsti skólastjóri, Hannes Flosason, ráðinn. Fyrst um sinn fékk skólinn aðstöðu í húsnæði sem hafði verið íbúð húsvarðar Mýrarhúsaskóla. Húsnæðið var fremur óhentugt en íbúðin var lagfærð og gerð hæf til kennslu. Samt sem áður var fyrirsjáanlegt að hún dygði ekki til frambúðar og að huga þyrfti að nýju húsnæði fyrir skólann.

Á þessu fyrsta ári voru nemendur 68 talsins og kennarar sjö fyrir utan skólastjóra. Skólinn hlaut afar góðar móttökur hjá bæjarbúum og nemendum fjölgaði hratt. Hannes Flosason lét af störfum sem skólastjóri tónlistarskólans 1985 og við tók Jón Karl Einarsson sem gegndi starfinu til ársins 1996 þegar Gylfi Gunnarsson tók við. Gylfi var skólastjóri til ársins 2014. Núverandi skólastjóri er Kári Húnfjörð Einarsson.

Árið 1981 flutti skólinn í núverandi húsnæði við Skólabraut og fékk þar til afnota sjö kennslustofur ásamt skrifstofu, kennarastofu og biðstofu. Tónleikasalurinn var hinsvegar ekki tilbúinn til notkunar fyrr en í apríl 1982. Skólinn fékk hluta af kjallara hússins til afnota árið 1992 og leysti það úr brýnni þörf fyrir aðstöðu vegna lúðrasveitarinnar.

Tónlistarskóli Seltjarnarness var opnaður í endurnýjuðu og stækkuðu húsnæði í ágúst 2004 þegar við bættist rými sem áður tilheyrði Bókasafni Seltjarnarness. Eftir þessa stækkun fjölgaði kennslustofum til einstaklings- og hópkennslu og öll aðstaða starfsfólks batnaði til mikilla muna.

Framkvæmdir og endurbætur á æfingasal skólalúðrasveitanna fóru fram sumarið 2008 og salurinn tekinn í notkun í byrjun þess skólaárs. Hann reyndist mjög vel, hljómburður góður og aðstaða til tónlistarflutnings og samspils með miklum ágætum. Langþráðu takmarki skólans var því náð: Öll starfsemi hans á einni hæð, þar með talin æfingaaðstaða fyrir allar hljómsveitirnar.      

Ýmsar hljómsveitir hafa starfað við skólann í lengri eða skemmri tíma. Má þar nefna strengjasveit, sinfóníuhljómsveit, klarínettukór, stórsveit og ýmsar  málmblásturshljómsveitir, að ógleymdu Bossanóva-bandinu sem gerði víðreist og lék víða við góðar viðtökur.

Samstarf milli tónlistarskólans og leikskólans hefur staðið yfir í um það bil 17 ár. Rétt fyrir aldamótin varð forskólakennsla sex ára barna gjaldfrjáls og færð inn í stundatöflu barnanna. Frá haustinu 2016 fá allir sjö ára nemendur forskólakennslu í tónlistarskólanum, foreldrum að kostnaðarlausu. Þessi kennsla verður einnig færð inn í stundatöflu barnanna og mun hún því falla inn í skóladaginn þeirra.

Síðast en ekki síst má geta þess að í febrúar 2015 var haldið upp á 40 ára afmæli skólans  á mjög eftirminnilegan hátt með veglegum tónleikum í Seltjarnarneskirkju. Á þeim tónleikum komu nær allir nemendur tónlistarskólans fram.




Um skólann