Um skólalúðrasveitina
Saga lúðrasveitarinnar
Á fundi skólanefndar Seltjarnarness sem haldin var 20. júlí 1966 bar Magnús Erlendsson fram svohljóðandi tillögu: "Undirritaður leggur til að stofnuð verði skólahljómsveit við Mýrarhúsaskóla á komandi hausti. Hljómsveit þessi verði í formi lúðrasveitar. Ráðinn verði sérmenntaður tónlistarkennari til að annast kennslu og sjá um æfingar og val barna í hljómsveitina." Tillaga þessi var samþykkt og í gang fór vinna við að panta hljóðfæri og ráða kennara. Haustið 1967 voru komin hljóðfæri og ráðnir höfðu verið Stefán Þ. Stephensen og Kristján bróðir hans til kennslunnar. Ekki leið á löngu þar til hljómsveitin var tilbúin að leika opinberlega. Ekki er vitað um nákvæma dagsetningu en mönnum ber saman um að það hafi verið seinnipartinn í nóvember og því upplagt að miða afmælisdaginn við þann atburð.
Hljómsveitin fór í sitt fyrsta ferðalag þá um vorið og var haldið upp í Borgarfjörð, spilað í Borgarnesi og gist á Varmalandi. Einnig kom hljómsveitin fram í sjónvarpsþættinum Stundinni okkar. Árið 1969 stóð hljómsveitin og frammámenn hennar fyrir að fyrsta Landsmót skólalúðrasveita yrði haldið á Seltjarnarnesi. Fyrst um sinn voru þessi landsmót fámenn, rétt um 100 þátttakendur, en fjöldi þátttakenda hefur margfaldast með árunum. Landsmót skólalúðrasveita hafa verið haldin vítt og breitt um landið og hafa skólalúðrasveitir frá Seltjarnarnesi tekið þátt í þeim öllum. Á þessum árum fór sveitin einnig að taka virkari þátt í viðburðum á vegum bæjarins, svo sem að taka lagið á 17. júní og annað slíkt.
Árið 1972 urðu svo stjórnendaskipti hjá hljómsveitinni: Stefán hætti og við tók Hans Ploder. Um það leyti urðu kynslóðaskipti í hljómsveitinni; eldri félagar hættu og héldu á vit nýrra ævintýra og ungir og efnilegir meðlimir tóku við. Tónlistarskóli Seltjarnarness var stofnaður 1974 og varð sveitin hluti af starfsemi skólans. Hún fékk nýtt nafn, Skólalúðrasveit Seltjarnarness, en hafði heitið Skólalúðrasveit Mýrarhúsaskóla fram að þeim tíma.
Árið 1978 tók Atli Guðlaugsson við stjórn sveitarinnar en hann gegndi því starfi einungis í eitt ár. Vorið 1979 fór Atli með sveitina á landsmót Samtaka íslenskra skólalúðrasveita (SÍSL) sem þá var haldið á Selfossi. Nokkru áður en mótið var haldið hafði Atli dottið af hestbaki og handleggsbrotnað. Hann var með stjórnunarhöndina í fatla en lét það ekki aftra sér og stjórnaði sveitinni með „öfugri“ hendi. Ekki fylgir sögunni hvort tónlistin hafi verið í samræmi við það.
Haustið 1979 tók Skarphéðinn Húnfjörð Einarsson við stjórnartaumunum og varð þá einnig talsvert um mannabreytingar í sveitinni. Undri stjórn Skarphéðins dafnaði sveitin vel, fór á landsmót, hélt tónleika og spilaði meðal annars við vígslu Eiðistorgs. Árið 1983 hélt sveitin í sína fyrstu utanlandsferð. Í þessari ferð voru heimsóttir vinabæir Seltjarnarness í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Ferðin gekk í alla staði vel og var rómuð bæði af gestum og gestgjöfum.
Áfram fjölgaði í sveitinni enda aðstaða hennar orðin miklu betri eftir að tónlistarskólinn flutti í eigið húsnæði við Skólabraut sem fullgert var árið 1982. Yngri deild lúðrasveitarinnar var stofnuð árið 1988 en þá voru meðlimir sveitarinnar orðnir svo margir og á svo breiðu aldurs- og getustigi að skipta þurfti hópnum í tvennt. Anna Benassi, sem þá var klarínettukennari við tónlistarskólann, stjórnaði yngri sveitinni fyrst um sinn.
Árið 1989 tók sveitin að sér að halda Landsmót SÍSL. Mótið varð það stærsta sem þá hafði verið haldið og mættu rúmlega 900 ungir hljóðfæraleikarar. Þetta var síðasta verkefnið sem Skarphéðinn tók að sér með sveitinni því hann lét af störfum þá um vorið. Haustið 1989 var Snorri Valsson ráðinn til að stjórna sveitinni. Snorri starfaði eitt ár.
Í september 1990 tók Kári Húnfjörð Einarsson við starfi stjórnanda Skólalúðrasveitar Seltjarnarness. Miklar breytingar höfðu orðið á fjölda meðlima sveitarinnar, eldri deildin öll hætt og yngri deildin orðin fáliðuð. Einungis þrettán börn mættu á fyrstu æfingu Kára en brátt fóru að tínast inn í sveitina fleiri spilarar og í lok skólaárs var sveitin tilbúin að fara á Landsmót SÍSL sem haldið var í Stykkishólmi. Kári tók upp á því strax fyrsta árið að fara í svokallaðar æfingabúðir þar sem farið er út úr bænum og æft heila helgi. Þetta urðu strax mjög vinsælar ferðir og hafa þær verið fastur liður í starfi sveitarinnar síðan.
Árið 1992 hélt sveitin aftur til útlanda og dvaldi í vikutíma við æfingar og tónleikahald í Herlev, vinabæ Seltjarnarness í Danmörku, ásamt hljómsveitum frá vinabæjum annarra Norðurlanda. Þetta var upphaf að mikilli ferðalagalotu sem enn sér ekki fyrir endann á. Sumarið 1993 tók sveitin svo á móti hljómsveitum frá norrænu vinabæjunum. Þetta var vikulangt mót þar sem mikið var æft, spilað og farið í ferðalag með ca. 180 manna hóp á Gullfoss og Geysi. Þetta ár hóf sveitin einnig útgáfu á kynningar- og fjáröflunarblaði og hefur gert það reglulega síðan.
Tveimur árum seinna (1995) fór sveitin til Skotlands og spilaði á strætum og torgum í Edinborg og Glasgow. Farið var í vatnasiglingu og tónleikar haldnir um borð í ferju við mikinn fögnuð viðstaddra sem vildu endilega kaupa geisladisk en því miður hafði slíkur diskur aldrei verið hljóðritaður. Ári seinna var sveitin aftur farin að starfa í tveimur stórum deildum og var Gamla Bíó tekið á leigu til tónleikahalds enda hljómsveitin orðin stór, 60-70 meðlimir.
Á afmælisárinu 1997 fór öll sveitin, bæði eldri og yngri deild, í tvær utanlandsferðir. Sú eldri fór til New York og spilaði til að mynda við Frelsisstyttuna. Þaðan lá leiðin til Kanada þar sem sveitin tók þátt í tónlistarhátíð Niagara International Music Festival. Þar var meðal annars farið í bátsferð upp að fossinum mikla.
Yngri deildin fór til Óslóar, þaðan á Gautaborgar-tónlistarhátíð, þar sem mikið var spilað, og síðan endaði ferðalagið í Kaupmannahöfn. Þetta haust hélt sveitin afmælistónleika í Mýrarhúsaskóla og spilaði í fyrsta skipti í þremur deildum: yngsta deild, miðdeild og elsta deild. Krakkarnir sem þá voru að hefja leikinn spiluðu saman óslitið í tíu ár eða allt til ársins 2007.
Árið 2000 var sveitin aftur komin í tvær deildir. Sú eldri tók þátt í tónlistarhátíð sem haldin var í Þrándheimi sem var þá menningarborg Evrópu. Þar hlotnaðist krökkunum sá heiður að sitja á næsta bekk við norsku drottninguna á tónleikum í Dómkirkjunni við Niðarós.
Árið eftir var haldið landsmót SÍSL í Reykjanesbæ. Þar fór fram fyrsta og eina lúðrasveitakeppnin sem hefur verið haldin hér á landi og hlaut sveitin 1. verðlaun í flokki yngri sveita. Sumarið eftir (2002) tók hljómsveitin þátt í Gautaborgar-tónlistarhátíðinni og vann keppni sem þar var haldin. Þegar hér var komið sögu hafði sveitin spilaði mjög mikið og mjög víða við allskonar athafnir og uppákomur sem gerði það að verkum að meðlimir sveitarinnar urðu ákaflega léttleikandi og áheyrilegir spilarar.
Árið 2004 hélt sveitin til Vínarborgar og tók þátt í tónlistarhátíð sem haldin er reglulega. Hljómsveitin spilaði á fjórum stöðum í Austurríki og fullt var út úr dyrum á öllum tónleikunum. Greinilega er mikil lúðrasveitarhefð þar í landi. Sveitin tók einnig þátt í mjög svo harðri keppni þar sem keppt var við lúðrasveitir víðsvegar að úr heiminum, margar mun stærri en Skólalúðrasveit Seltjarnarness, og þar náði sveitin fjórða sæti. RÚV tók upp prógrammið sem var á efnisskrá sveitarinnar í þessari ferð og mátti heyra það leikið í heild sinni á gamlársdag 2004.
Á þessum tíma hafði yngri sveitinni vaxið svo fiskur um hrygg að hún var farin að undirbúa utanlandsferð og aftur var farið að æfa í þremur deildum. Gautaborg var heimsótt eina ferðina enn og nú var það yngri deildin sem hreppti fyrsta sætið í keppninni það árið.
Veturinn 2005-2006 fór meðlimafjöldi Skólalúðrasveitar Seltjarnarness í fyrsta sinn yfir eitt hundrað einstaklinga sem verður að teljast nokkuð gott í ekki stærra sveitarfélagi því engin kvöð er fyrir nemendur tónlistarskólans að vera í hljómsveitinni; þar eru krakkarnir af fúsum og frjálsum vilja. Hljómsveitin tók alveg nýja stefnu og setti upp söngleik 2006. Söngleikurinn sem byggður var á tónlistarmyndinni The Commitments fékk íslenska titilinn Sálsveitin Skuldbinding og var sýndur átta sinnum í Félagsheimili Seltjarnarness fyrir fullu húsi. Atli Þór Albertsson, fyrrverandi túbuleikari sveitarinnar, skrifaði handrit og leikstýrði ásamt Bryndísi Ásmundsdóttur leik- og söngkonu. Útsetningar og tónlistarstjórn voru í höndum Kára Húnfjörð.
Vorið 2007 fækkaði svo aftur í sveitinni þegar elsti hópurinn hætti eftir afar vel heppnaða ferð til Boston um páskana. Þar var leikið í menntaskólum og bæði Berklee- og Harvard-háskólarnir í Boston heimsóttir. Krakkarnir sem voru meðlimir elstu sveitarinnar á þessum tíma höfðu ekki tölu á öllum þeim stöðum sem þau höfðu heimsótt í formi æfingabúða, tónleika og ferðalaga.
Yngri sveitin fór einnig til útlanda vorið 2007. Fyrir valinu varð Ungverjaland og ferðin vægast sagt eftirminnileg í alla staði. Undirtektirnar sem sveitin fékk á lokatónleikum sínum í Ungverjalandi voru þannig að stjórnandinn hafði ekki upplifað annað eins.
Afmælistónleikar voru haldnir haustið 2007 í Seltjarnarneskirkju í tilefni 40 ára afmælis sveitarinnar. Meðlimir yngri sveitarinnar sem fóru til Ungverjalands voru fullir af eldmóði og áhuga og foreldrafélagið sem að henni stóð lét ekki deigan síga því strax var settur af stað undirbúningur fyrir aðra utanlandsferð. Sumarið 2008 fór sveitin til Amsterdam og spilaði þar á strætum og torgum. Ferðin var frábær í alla staði enda Amsterdam mikil menningar- og tónlistarborg.
Haustið 2008, um það leyti sem hrunið átti sér stað á Íslandi, var sveitinni afhentur nýr og glæsilegur æfingasalur í húsnæði tónlistarskólans. Fram að þeim tíma hafði sveitin æft í kjallara byggingarinnar. Þetta var gríðarleg bót fyrir starfsemi sveitarinnar og öll aðstaða orðin eins og best verður á kosið.
Sveitin hélt áfram að fara í æfingabúðir og halda tónleika af ýmsum toga þrátt fyrir þá miklu kreppu sem gekk yfir landið en ekki var farið í neinar utanlandsferðir fyrr en árið 2012 þegar haldið var til Gautaborgar. Þetta var í fjórða sinn sem hópur frá Skólalúðrasveit Seltjarnarness tók þátt í Gautaborgar-tónlistarhátíðinni. Þá voru í sveitinni ungmenni sem fædd voru á árunum 1998-2001. Ferðin heppnaðist vel í alla staði og var meðal annars siglt um síki borgarinnar og spilað í hinum fræga skemmtigarði Liseberg.
Tveimur árum seinna hélt þessi sami hópur til Spánar og tók þátt í tónlistarhátíð sem haldin er ár hvert í smábænum Calella rétt norðan við Barcelona. Þessi ferð var mjög fín að öllu leyti, veðrið og spilamennskan, að maður tali nú ekki um blakmótið sem stóð yfir í þrjá daga með tilheyrandi riðlakeppni og svo útsláttarfyrirkomulagi eins og tíðkast á heimsmeistaramótum.
Haustið 2015 urðu mjög miklar mannabreytingar á skólalúðrasveitinni þar sem margir úr eldri sveitinni hættu í tónlistarskólanum af ýmsum ástæðum. Í dag samanstendur Skólalúðrasveit Seltjarnarness af 30 áhugasömum krökkum úr þriðja til fimmta bekk sem æfa af krafti enda lætur árangurinn ekki á sér standa. Þau tóku þátt í Nótunni 2016, uppskeruhátíð tónlistarskólanna sem haldin var með tónlistarskólum úr kraganum, og fengu verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í fyrstu umferð hátíðarinnar.
Þetta er að sjálfsögðu engan veginn tæmandi æviágrip því segja má að hver æfing og hver atburður í lífi svona hljómsveitar sé lítil saga útaf fyrir sig. Læt ég máli mínu lokið þó svo að ótalmargt sé ósagt.
Kári Húnfjörð Einarsson, stjórnandi Skólalúðrasveitar Seltjarnarness skráði.