Fréttir

Tónlistarskólinn tekur þátt í Nótunni

Svæðistónleikar Nótunnar fyrir Kragann, Suðurland og Suðurnes voru haldnir  í sal fjölbrautarskólans á Suðurlandi á Selfossi laugardaginn 16. mars.

19.3.2013

Svæðistónleikar Nótunnar fyrir Kragann, Suðurland og Suðurnes voru haldnir  í sal fjölbrautarskólans á Suðurlandi á Selfossi laugardaginn 16. mars. Atriði frá Tónlistarskóla Seltjarnarness var valið til flutnings á lokatónleikum Nótunnar í Eldborgarsal Hörpu sunnudaginn 14. apríl. Af 25 atriðum tónleikanna fengu níu atriði viðurkenningu og af þeim níu voru sjö atriði valin áfram á lokahátíð Nótunnar í Eldborgarsal Hörpu. Fulltrúi Tónlistarskóla Seltjarnarness í keppninni var Björgvin Ragnar Hjálmarsson  saxófónleikari og með honum léku Ingólfur Arason á rafgítar, Helgi Guðjónsson á rafbassa og Sölvi Rögnvaldsson á slagverk. Björgvin og félagar útsettu og léku verk sem þeir nefndu SPRENGISANDSHVIÐU.  Gaman er að geta þess að þetta er í þriðja sinn af fjórum mögulegum sem nemendur frá Tónlistarskóla Seltjarnarness  taka þátt í lokahátíð Nótunnar

Nótan, uppskeruhátíð tónlistarskóla, er samstarfsverkefni Félags tónlistarskólakennara, Félags íslenskra hljómlistarmanna og Samtaka tónlistarskólastjóra. Þátttakendur eru frá öllu landinu og efnisskráin endurspeglar ólík viðfangsefni tónlistarnemenda á öllum stigum tónlistarnáms.


Fréttir