Tónlistarnámið
Tónlistarskóli Seltjarnarness býður upp á fjölþætt tónlistarnám þar sem öllum tegundum tónlistar er gert jafnhátt undir höfði. Tónlistarnám er einstaklingsmiðað nám þar sem áhersla er lögð á að hver nemandi fái kennslu við hæfi, njóti sín á eigin forsendum og tileinki sér um leið öguð vinnubrögð og sjálfstæða hugsun. Nemendur fá stuðning og hvatningu til að leggja rækt við þá tónlist sem er þeim að skapi ásamt því að kynnast fjölbreyttri flóru tónlistar frá öllum tímum. Auk hefðbundins nótnanáms fá þeir tækifæri til að spila eftir eyra, spinna og skapa sína eigin tónlist.
Til þess að námið verði árangursríkt og skemmtilegt þarf nemandinn að æfa sig daglega. Lengd æfingatímans fer eftir aldri og þroska nemandans og eins hvar hann er staddur í sínu námi. Tónlistarnám byggist að verulegu leyti á heimavinnu og því fer námsframvindan eftir ástundun hvers og eins. Mikilvægt er að foreldrar séu þátttakendur í námi barna sinna, hjálpi þeim að stunda reglubundnar æfingar og sýni náminu áhuga og athygli.