Samstarf Tónlistarskólans við Leikskóla Seltjarnarness

Samstarf Leikskóla Seltjarnarness og tónlistarskólans felst í því að kennari frá tónlistarskólanum sinnir markvissri tónlistarkennslu á öllum tíu deildum leikskólans. Öll leikskólabörn á Seltjarnarnesi sækja tónlistartíma einu sinni í viku þar sem leitast er við að skapa jákvæða umgjörð utan um markvisst tónlistaruppeldi sem hæfir eins og hálfs til fimm ára börnum. 

Börnunum er skipt í 8-10 manna hópa og starfsfólki leikskólans gefinn kostur á að sækja tónlistartímana með börnunum. Á þann hátt er stuðlað að því að tónlistarkennslan smiti út frá sér og skili sér inn í hið margbreytilega starf sem fer fram innan leikskólans. 

Auk þess hefur skapast hefð fyrir stuttum uppákomum á Leikskóla Seltjarnarness þar sem nemendur tónlistarskólans heimsækja leikskólabörnin og flytja tónlist fyrir þau. Þessar heimsóknir eru hugsaðar sem hljóðfærakynning fyrir leikskólabörnin og einnig sem liður í að kenna börnunum að hlusta á og njóta tónlistar. 

Á hverju ári er öllum leikskólabörnunum boðið á sérstaka jólatónleika sem fara fram í tónlistarskólanum á aðventunni.

 


Samstarf við Leikskóla Seltjarnarness