Forskólinn

Sá grunnur sem lagður er í forskólanáminu er mikilvæg undirstaða fyrir frekara tónlistarnám. Markmið forskólakennslunnar er að gefa nemendum tækifæri til að kynnast heimi tónlistarinnar og búa þá undir hljóðfæranám með því að byggja upp grunnþekkingu í tónfræði og nótna- og hrynlestri.

Í forskólanum er mikil áhersla lögð á söng, hrynþjálfun, hreyfingu og hlustun. Auk þess er lögð áhersla á að nemendur fái tækifæri til að spreyta sig á hinum ýmsu ásláttarhljóðfærum og njóti sín við að tjá og skapa eigin tónlist. Kennslan fer fram í tónlistarskólanum undir handleiðslu tónlistarkennara.

 

Forskóli I

Allir nemendur í fyrsta bekk Grunnskóla Seltjarnarness sækja nám í Forskóla I, án endurgjalds. Nemendurnir mæta í tónlistarskólann á skólatíma einu sinni í viku í 40 mínútur, ein bekkjardeild í senn. Tvisvar á vetri koma nemendur fram á tónleikum og fá þá tækifæri til að sýna afrakstur námsins. Forskóli I er skyldunám.

 

Forskóli II

Haustið 2016 hefst tilraunaverkefni sem gengur út á að auka samstarf tónlistarskólans og grunnskólans. Öll börn í öðrum bekk munu þá sækja tíma í Forskóla II, án endurgjalds.

Í Forskóla II taka nemendur fyrstu skrefin í hljóðfæranámi og nótnalestri með því að læra á blokkflautu. Auk þess er unnið áfram með þætti eins og söng, hrynþjálfun, hlustun og hreyfingu. Kennslan fer fram í 4-6 manna hópum tvisvar í viku, í 30 mínútur. Nemendur koma nokkrum sinnum fram á tónleikum yfir veturinn. Einnig býðst þeim ásamt foreldrum að koma á hljóðfærakynningu sem haldin er ár hvert til að nemendur eigi auðveldara með að velja hljóðfæri að forskólanámi loknu. 


Forskóli