Hlutverk og markmið Tónlistarskóla Seltjarnarness
Tónlistarskóli Seltjarnarness hefur að leiðarljósi þau markmið sem sett eru fram í aðalnámskrá tónlistarskóla og skólastefnu Seltjarnarness.
Í aðalnámskrá tónlistarskóla stendur meðal annars að meginmarkmið tónlistarskóla sé að efla hæfni, þekkingu og þroska nemenda sem og stuðla að öflugu tónlistarlífi í landinu. Tónlistarskólum ber að taka tillit til margbreytilegs áhugasviðs nemenda, getu þeirra og þroska þannig að skólarnir þjóni öllum þeim sem sækjast eftir tónlistarnámi. Kennsluaðferðir og viðfangsefni þurfa að vera fjölbreytt og sveigjanleg.
Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla er hlutverk tónlistarskóla að:
- Stuðla að aukinni hæfni nemenda til að flytja, greina og skapa tónlist og til að hlusta á tónlist og njóta hennar.
- Búa nemendur undir að geta iðkað tónlist upp á eigin spýtur.
- Búa nemendur undir nám í tónlist og skyldum greinum á háskólastigi.
- Stuðla að auknu tónlistarlífi.
Meginmarkmið tónlistarskóla skiptist í þrjá flokka samkvæmt aðalnámskrá:
- Uppeldisleg markmið: að stuðla að auknum tilfinningaþroska nemenda, listrænum þroska, mótun viðhorfa, samvinnu og ögun.
- Leikni- og skilningsmarkmið: að stuðla einkum að aukinni færni og þekkingu nemenda.
- Samfélagsleg markmið: að stuðla að þátttöku í fjölbreyttri mennta- og menningarstarfsemi.
Skólastefna Seltjarnarness byggir á gildunum virðing, ábyrgð, vellíðan. Í skólastefnunni er lögð áhersla á að barnið sé ávallt í brennidepli og nái að þroska hæfileika sína. Allt skólastarf á að mæta þörfum hvers og eins hvað varðar viðfangsefni náms og kennsluhætti, og að stuðla að vellíðan nemenda þannig að þeir öðlist þroska, þekkingu og reynslu til að takast á við daglegt líf.
Í skólastefnu Seltjarnarness er einnig lögð áhersla á gott samstarf og sátt um skólastarfið. Nemendur, foreldrar, kennarar og annað starfsfólk vinni saman að því að byggja upp jákvætt samfélag, góðan starfsanda og heilbrigðan aga í metnaðarfullu, skapandi og öruggu umhverfi.
Leitast er við að skólastarfið nýti sérstöðu Seltjarnarness þar sem nálægð stofnana býður upp á samfellu í vinnudegi nemenda og því er mikið lagt uppúr góðu samstarfi tónlistarskólans við aðra skóla bæjarins og íþróttafélagið Gróttu. Frá einsetningu grunnskólans hafa nemendur Tónlistarskóla Seltjarnarness sótt hljóðfæranám á skólatíma, allir nemendur í fyrsta og öðrum bekk stunda nám í forskóla tónlistarskólans og öll börn í leikskóla bæjarins njóta tónlistarkennslu undir umsjá kennara frá tónlistarskólanum.
Tónlistarskóli Seltjarnarness hefur þau markmið að breiða út almenna þekkingu og áhuga á tónlist í nærsamfélaginu. Leitast er við að frá skólanum komi áhugasamir og metnaðarfullir tónlistariðkendur sem auðgi og bæti bæjarlífið. Skólinn vill búa nemendum fjölbreytt skilyrði til að þroska tónlistarhæfileika sína og sköpunargáfu. Nemendur fá hvatningu og stuðning til að leggja rækt við þá tónlist sem hugur þeirra stendur til ásamt því að kynnast fjölbreyttri flóru tónlistar frá öllum tímum. Skólinn hefur þá sýn að nýta skuli með fjölbreyttum hætti þá tækni sem aðgengileg er hverju sinni og fylgjast með framförum á því sviði tengdu tónlistarsköpun og flutningi. Áhersla er lögð á félagslegt gildi tónlistar með þátttöku nemenda í ýmiss konar samleik og hljómsveitarstarfi. Hlutverk skólans er að veita nemendum sínum góða undirstöðuþekkingu og þjálfun í tónlist sem flytjendur og ekki síður hlustendur.