Tónleikar
Tónleikar eru veigamikill þáttur í tónlistarnámi. Að koma fram á tónleikum eflir sjálfstraust nemenda og styrkir sjálfsmynd þeirra. Lögð er áhersla á að hver nemandi komi fram á tónleikum að minnsta kosti tvisvar á ári. Til að tryggja að svo verði heldur hver kennari skólans tónleika fyrir sinn nemendahóp tvisvar á skólaárinu. Auk þess eru eftirtaldir tónleikar fastir liðir í vetrarstarfinu:
Miðvikudagstónleikar eru haldnir á sal skólans um það bil tvisvar í mánuði. Þeir hefjast kl. 18 og eru 30-40 mínútna langir.
Jóla- og vortónleikar skólans fara fram í Seltjarnarneskirkju, þrennir tónleikar í hvort skipti.
Dagur tónlistarskólanna er haldinn hátíðlegur annan laugardag í febrúar ár hvert. Þann dag er hefð fyrir opnu húsi í tónlistarskólanum þar sem boðið er upp á tónlist í hverju horni auk kaffihlaðborðs sem er um leið fjáröflun lúðrasveitanna.
Tónleikar fyrir leik- og grunnskóla og heimsóknir til eldri borgara einkenna síðustu dagana fyrir jólafrí. Fyrstu tvo dagana, frá morgni og fram eftir degi, koma nemendur skóla bæjarins í tónlistarskólann á stutta tónleika þar sem bæði nemendur og kennarar koma fram. Einn dagur er frátekinn í heimsóknir með stutta tónlistardagskrá á dagvistir og dvalarheimili aldraðra. Markmið skólans er að fjölga slíkum viðburðum til að fleiri geti notið afraksturs þess góða starfs sem fram fer í tónlistarskólanum.
Tónstafir er röð tónleika sem haldnir eru sex sinnum yfir vetrartímann á Bókasafni Seltjarnarness. Tónstafir eru samstarfsverkefni tónlistarskólans og bókasafnsins.
Leikskólar bæjarins eru heimsóttir tvisvar á ári. Hópur nemenda fer í fylgd nokkurra kennara tónlistarskólans og leikur fjölbreytta tónlist fyrir yngstu bæjarbúana.
Uppákomur á Eiðistorgi. Skólinn hefur staðið fyrir tónleikum á Eiðistorgi að minnsta kosti einu sinni á ári.